Í síðasta mánuði var lagt fram frumvarp um einræði Innanríkis/forsætisráðherra þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi. Frumvarpið er hér. Tilefnið er sagt Bárðarbunga og það allt. Óbreytt frá fyrri lögum er að Ríkislögreglustjóri ákvarðar hvort á landinu er neyðarástand. Það er, hætta á:

að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum …

Það segja lögin. Tæknilega nægir þá, til dæmis, alvarleg hætta á að eignir verði fyrir tjóni til að lögreglustjóri geti lýst yfir neyðarástandi. Með nýja frumvarpinu þýðir slík yfirlýsing að ráðherra ræður öllu. Ferðum til og frá landinu, samskiptakerfum, hvaða fyrirtækjum sem hann vill stjórna og svo framvegis.

Ég er ekki að segja að Sigmund Davíð eða aðra langi í einræðisherratign, eða að sú þróun sé ásetningurinn með frumvarpinu. En er ekki, segjum, óþarft að opna þann möguleika markvisst með lagabreytingu? Eða, í það minnsta, vissara að debattera það aðeins? Hvernig færi annar lögreglustjóri og ríkisstjórn með þetta vald við tilefni á við skarkalann sem við gerðum í janúar 2009?

Fólk hefur í gegnum tíðina fengið tilefni til að sjá eftir öðrum eins lagaglufum. Í öðrum löndum, já, en Ísland er líka annað land.